Bulsur eru íslenskar grænmetispylsur. Þær eru búnar til úr íslensku lífrænt ræktuðu bankabyggi, baunum, mjöli og fræjum og án allra aukaefna. Þær innihalda engar dýraafurðir. Hráefnin eru valin af kostgæfni og Bulsur innihalda lífræn innihaldsefni öðrum fremur og innlend hráefni þegar því verður við komið. Þær eru kryddaðar með ferskum hvítlauk og ferskum chilipipar.
Þú grillar Bulsur eða steikir þær á pönnu og berð fram með því meðlæti sem þér dettur í hug.
Bulsur fást í Frú Laugu, Melabúðinni, Krónunni, Nettó, Kjörbúðunum, Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Nóatúni, Iceland og víðar
Eftirtaldir veitingastaðir bjóða jafnframt upp á Bulsur: Skál Hlemmi Mathöll, Hlemmur Square, Geysir Bistro, Við Voginn, Bjórgarðurinn Höfðatorgi, Local Langoustine – Jökulsárlóni og Havarí Berufirði.
Innihaldslýsing
Bankabygg frá Vallanesi, nýrnabaunir, vatn, tómatpúrra, maísmjöl, hveiti, hörfræ, chia fræ, sólblómaolía, sjávarsalt frá Reykjanesi, möndlur, chili pipar, hvítlaukur, repjuolía frá Þorvaldseyri, örvarrót, broddkúmen, reykt paprika, pipar.
Án aukaefna
Sagan
Það var á fögrum vordegi árið 2012 sem Svavar Pétur sat við eldhúsborðið heima hjá sér og hugsaði um pulsur. Nokkrum mánuðum áður hafði hann tekið ákvörðun um að hætta að borða kjöt. Hann var þokkalega ánægður með ákvörðunina en samt dauðlangaði hann í pulsu!
Hann byrjaði því að prófa sig áfram með það að markmiði að búa til nýja gerð af grænmetispylsu sem innihéldi staðbundin hráefni svo framarlega sem kostur væri.
Svavar komst fljótlega að því að bankabygg væri góð undirstaða og eftir margar tilraunir með allskyns önnur hráefni til viðbótar litu Bulsur dagsins ljós vorið 2013.
Um svipað leyti komst Svavar í samband við Karolina Fund sem leiddi til þess að hann ákvað að hefja fjáröflun til að koma verkefninu á koppinn. Fjáröflunin gekk vonum framar og fór langt fram úr væntingum. Margir höfðu trú á verkefninu og lögðu því lið og þeim verður seint fullþakkað.
Það var svo að morgni 1. júní 2013 sem Svavar fór með fyrstu lögunina í Frú Laugu og Melabúðina eftir langar vökur við framleiðslu á skammti sem átti að endast í nokkrar vikur í búðunum. En örfáum klukkustundum eftir að dreifingu var lokið var hringt til baka. Bulsurnar voru uppseldar!
Fólk var greinilega spennt fyrir Bulsunum. Eftirspurnin var til staðar og fljótlega fóru aðrar verslanir að hringja og vildu fá að bjóða viðskiptavinum sínum Bulsur.
Við erum ævinlega þakklát fyrir móttökurnar. Bulsur verða til svo lengi sem einhver vill gæða sér á þeim. Möguleikarnir við eldamennskuna eru óendanlegir og til dæmis bendum við á nýútkomna bók Guðrúnar Sóleyar sem inniheldur nokkrar frábærar Bulsu-uppskriftir. Bókina má kaupa hér.
Verði ykkur að góðu, og megi framtíðin vera bæði væn og græn fyrir okkur öll.
Svavar og Berglind